Langar þig út í vorið í góðum félagsskap? Hallgrímur Pétursson á 400 ára afmæli. Miðvikudaginn 28. maí býður Neskirkja öllum sem vilja í safnaðarferð í Hvalfjörð. Farið verður frá Neskirkju kl. 13,30 og ekið að sumarbúðum KFUM í Vatnaskógi. Þaðan verður farið að Saurbæ og gengið í Hallgrímskirkju. Kristinn Jens Sigurþórsson, sóknarprestur, fræðir um staðinn, sálmaskáldið Hallgrím og fjölskyldu hans. Með í för verður Hljómur, hinn gleðiríki kór eldri borgara í Neskirkju, en hann mun syngja í kirkjunni. Neskirkja býður og kostar rútuferðina en þátttakendur greiða kr. 1000 fyrir kaffi í Vatnaskógi. Fararstjóri verður Sigurður Árni Þórðarson.

Uppstigningardagur er dagur eldri borgara. Í guðsþjónustunni í Neskirkju kl. 14 syngur Hljómur undir stjórn Jóhönnu Halldórsdóttur. Steingrímur Þórhallsson leikur á orgelið og Sigurður Árni Þórðarson, prédikar. Eftir athöfn í kirkjunni verður veislukaffi á Torginu. Gleðin heldur áfram því Reynir Jónasson mun þenja harmonikkuna sína og leika undir almennan söng. Svo verður ræðuhorn – n.k. speakers corner: Þau sem hafa löngun til að segja skemmtisögu hafa aðgang að hljóðnema.

Miðvikudagurinn 28. maí er góður dagur fyrir vorferð inn í ilmandi skóg og á vit menningar. Á uppstigningardegi, 29. maí, er þér og öllu þínu fólki boðið til kirkjunnar þinnar. Neskirkja þjónar lífinu og mannfólkinu á öllum aldri. Verið velkomin til gleðinnar.