Næstkomandi þriðjudagskvöld, 22. febrúar, verða tónleikar í Neskirkju undir yfirskriftinni “Herra mig heiman bú” þar sem flutt verða eingöngu verk eftir Steingrím Þórhallsson organista við Neskirkju. Steingrímur stundar nú nám í tónsmíðum við Listaháskóla Íslands og voru öll verkin samin á síðastliðnum tveimur árum. Fram koma Kór Áskirkju undir stjórn Magnúsar Ragnarssonar, málmblásarakvintettinn “Yobo habeva” og Steingrímur sjálfur á orgel. Einsöngvari á tónleikunum er Hallveig Rúnarsdóttir sópran. Tónleikarnir hefjast klukkan 20:00 í Neskirkju við Hagatorg og er miðaverð 1000 krónur.

Steingrímur Þórhallsson (1974) er uppalinn á Húsavík þar sem hann hlaut sína fyrstu tónlistarmenntun. Hann lauk píanókennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og kantorsprófi frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar árið 1998. Orgelkennari hans var Marteinn H. Friðriksson, dómorganisti. Haustið 1998 hóf hann nám við Pontificio Istituto di Musica Sacra í Róm, sem er kirkjutónlistarstofnun Páfagarðs. Þaðan tók hann lokapróf, Magistero in organo, sumarið 2001 undir leiðsögn Giancarlo Parodi.

Steingrímur hefur komið fram í mörgum helstu kirkjum á Íslandi við góðan orðstír, bæði sem einleikari og meðleikari, og skipta tónleikar hans nú tugum. Einnig hefur hann leikið á nokkrum hljóðritum hjá Ríkisútvarpinu, meðal annars tvo orgelkonserta eftir Händel með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hann hefur komið fram á tónleikum erlendis, meðal annars á Ítalíu, Eistlandi og Finnlandi, sem og getið sér gott orð sem kórstjórnandi. Hann hefur einnig unnið til verðlauna erlendis fyrir lagasmíðar.

Steingrímur starfar sem organisti og kórstjóri við Neskirkju í Reykjavík og vinnur jafnframt með nokkrum tónlistarhópum á Íslandi. Samhliða stundar hann nú nám í tónsmíðum við Listaháskóla Íslands undir handleiðslu Tryggva M. Baldvinssonar.