Laugardaginn 17. maí var öllu starfsfólki leikskóla í Vesturbæ boðið á fræðsludag á vegum Dómkirkju og Neskirkju. Markmið dagsins var að bjóða upp á uppbyggilega fræðsludagskrá til að styðja við það góða starf sem starfsfólk leikskólanna er að vinna. Við tókum fullt af myndum á þessum skemmtilega degi og þökkum öllum þáttakendum fyrir.

Laugardaginn 17. maí var öllu starfsfólki leikskóla í Vesturbæ boðið á fræðsludag á vegum Dómkirkju og Neskirkju. Markmið dagsins var að bjóða upp á uppbyggilega fræðsludagskrá til að styðja við það góða starf sem starfsfólk leikskólanna er að vinna. Við tókum fullt af myndum á þessum skemmtilega degi og þökkum öllum þáttakendum fyrir.

Margar leikskólakonur nýttu sér tilboðið og var lögð áhersla á létta og hagnýta dagskrá. Sigurvin Jónsson og sr. Þorvaldur Víðsson æskulýðsfulltrúar kirknanna stýrðu deginum og var fyrsta verkefnið samhristingur sem fól í sér að hella vatni úr könnu með átta böndum sem konurnar héldu í endana á. Það flókna verkefni er táknrænt fyrir það góða ,,vatn” sem starfsfólk leikskóla miðlar til barnanna í fræðslu og ummönnun en það kemst til skila einungis með samvinnu og fagmennsku þeirra sem að börnunum koma.

María Ellingsen leikkona og sunnudagaskólakennari hélt erindi sem bar heitið ,,Með fjársjóð í höndunum” en hún hefur þjálfað leiðtoga í samskiptum og framkomu til margra ára. Leikskólakonurnar fengu hagnýt verkfæri í hendurnar frá Maríu til að láta ljós sitt skína og haldast jákvæðar í sínu krefjandi starfi.

Í fyrra gafst þátttakendum tækifæri til að gefa álit sitt á deginum og koma með tillögur að næsta efni og voru margar sem sögðust vilja fá umfjöllun um fjölmenningu og leikskólann en það efni er leikskólunum hugleikið með vaxandi fjölda útlendinga í hverfinu. Af því tilefni var fenginn Einar Skúlason framkvæmdarstjóri Alþjóðahúss en hans erindi ,,Fjölmenning, ólík trúarbrögð og samfélag” sagði frá því mikilvæga starfi sem Alþjóðahús er að vinna með fólki af erlendu bergi brotnu á Íslandi. Fjölmenningin er veruleiki á leikskólum Vesturbæjar en í hverfinu eru að alast upp fjöldi barna sem eiga erlendan uppruna og auðga samfélag okkar með ólíkum menningarbakgrunni sínum. Með Einari var prestur innflytjenda sr. Toshiki Toma en hann hefur aðstöðu í Neskirkju og vinnur náið með Alþjóðahúsi. Að lokinni fræðslu sá sr. Anna Sigríður Pálsdóttir um helgistund með þáttakendum þar sem tendrað var bænaljós fyrir leikskólabörnum hverfisins og beðið fyrir starfi skólanna.