Það hefur löngum blásið um Sigurbjörn Einarsson, biskup. Í gær var haldin hátíð til heiðurs þessum jöfri andlegra orðlista á tuttugustu öld. Það var eiginlega við hæfi að gert hefði byl og allt væri á kafi í snjó.

Sigurbjörn ljósm Þorvaldur KarlÞað hefur löngum blásið um Sigurbjörn Einarsson, biskup. Í gær var haldin hátíð til heiðurs þessum jöfri andlegra orðlista á tuttugustu öld. Það var eiginlega við hæfi að gert hefði byl og allt væri á kafi í snjó.

Það er vel að hefja prédikun og list orðsins í öndvegi í þjóðkirkjunni. Prédikun er meginhlutverk presta. Prestar flytja erindi Guðs í öllum kirkjulegum athöfnum og flestum samkomum þar sem þeim er falið eitthvert hlutverk. Fjölmenningaraðstæður og sjónarsókn samfélagsins gerir miklar kröfur til vöndunar máls, hugsunar og búnings. Margt er gert til að efla predikun.

Í Neskirkju funda prestar á fimmtudagsmorgnum til að huga að prédikunarefni sunnudagsins á eftir. Kjalarnesprófastsdæmi hefur í nokkur ár staðið fyrir merkum prédikunarnámskeiðum og ráðstefnum. Prestar funda í nokkrum prófastsdæmum til að ræða texta næsta sunnudags. Prestafélag Íslands hefur myndað efnisbanka og spjalltorg um prédikun. Biskupsstofa birtir prédikanir á vef kirkjunnar www.tru.is

Og svo hefur Grafarvogskirkja tekið ákvörðun um að halda hátíð um kirkjulega orðlist. Það er vel og við hæfi að fjalla um Sigurbjörn Einarsson því hann er ekki aðeins stórkostlegur prédikari, heldur besta sálmaskáld Íslendinga á tuttugustu öld. Svo kom hann við sögu í pólitík og skipti sér af ýmsum samfélagsmálum. En auðvitað þekkja flestir Sigurbjörn sem “biskupinn.”

Snjónum kyngdi niður aðfarnótt sunnudagsins. Það var heilmikið mál að moka af bíl. Í Litlabæjarrjóðrinu heima var a.m.k. 30 cm. jafnfallinn snjór. Við Elín komum bíl af stæði og svo flengdumst við í gegnum skafla upp Tómasarahaga og skautuðum inn á Hjarðarhaga og komumst á meginbrautir. Snjórinn var mikill og kannski var aðalkúnstin að gæta þess að engir bílar rynnu á þann sem við vorum í.

En alla leið komust við og það var stemming í Grafarvogskirkju. Það var kraftaverki líkast að sjá hversu margir voru komnir þrátt fyrir veður og ófærð. Dagskrá hófst í kjallara kirkjunnar upp úr kl. 10. Mér var falið að tala um kennimanninn Sigurbjörn. Við náðum svo að hlusta á afbragðserindi Margrétar Eggertsdóttur um skáldið Sigurbjörn. Síðan áttu Guðrún Helgadóttir og Svanur Kristjánsson eftir að tala, þegar við urðum frá að hverfa.

Ég átti að messa í Neskirkju á venjulegum messutíma kl. 11 og því betra að láta ekki söfnuðinn bíða. Talsverðir erfiðleikar höfðu verið fyrir messufólk að komast til kirkju. Aðeins tveir kórfélagar náðu til kirkju, meðhjálparinn lenti í mesta basli á leiðinni og presturinn kom ekki fyrr en fimm mínútur voru í messuupphaf.

Ekki áttum við starfsólkið von á mörgum í ófærðinni. En sjá, straumur fólks í kirkjuna var stöðugur. Fjöldinn í messubyrjun var nærri eitt hundrað. Ótrúleg blessun er það að finna til trúfesti og sístækkandi hóps sem sækir kirkju.

Það var undursamlegt að embætta og mér fannst eins og þetta samfélag, komið inn úr kafaldi og kófi, væri sem söfnuður engla. Ásjónur fólksins var með guðsbarnasvipnum þegar þau gengu fram að borði Guðs.

Orðlistadagurinn, sem var á hvítum sunnudegi, var góður dagur, dagur fyrir íhugun um hvað skiptir máli. Svo var texti dagsins afar grípandi og kleip í mann.

Ég vil nota tækifærið og þakka prestunum í Grafarvoginum fyrir frábært framtak og óska þeim velgengni með þetta og annað starf í framtíðinni. Örerindi mitt um Sigurbjörn Einarsson birtist á pistlasíðu tru.is.