Tónleikar
laugardaginn 26. október kl. 17
Neskirkja

Brahms – Ein deutsches Requiem

Kór Neskirkju og Sinfóníuhljómsveit áhugamanna ráðast nú í að flytja eitt helsta stórvirki kórbókmenntanna, meistaraverk Jóhannesar Brahms, Ein deutches Requiem. Einsöngvarar eru Hallveig Rúnarsdóttir og Hrólfur Sæmundsson. Stjórnandi er Steingrímur Þórhallsson.

Sálumessuna samdi Brahms á tímabilinu frá 1865 til 1868. Verkið heitir fullu nafni Ein Deutches Requiem, nach Worten der heiligen Schrift, eða þýsk sálumessa með texta úr heilagri ritningu. Fráfall móður Brahms 1865 varð honum hvatning til þess að semja sálumessu, en það tók hann langan tíma að fullmóta verkið. Það sem við þekkjum nú sem annan kafla messunnar var upphaflega hluti af píanó sónötu sem tók ýmsum breytingum í áranna rás áður en hún varð hluti af sálumessunni. Brahms skrifaði fimm kafla til viðbótar og sálumessan var frumflutt í Bremen, á föstudaginn langa, árið 1868. Sagan segir að áheyrendur hafið orðið fyrir gríðarlegum áhrifum af flutningnum og að þeir hafi setið með tárin í augunum allt frá fyrsta kórkaflanum þar sem þungi sorgar Brahms hreyfði við hverjum hlustanda – „Selig sind, die da Leid tragen, denn sie sollen geströstet werden“ (Sælir eru syrgjendur því að þeir munu huggaðir verða).

Brahms var ekki fullkomlega ánægður með messuna eftir flutninginn í Bremen. Í kjölfarið bætti hann við sjöunda kaflanum fyrir sópran og kór. Þar með var þýska sálumessan fullgerð. Hún var fyrst flutt í endanlegri mynd í Leipzig árið 1869.

Titill messunnar endurspeglar notkun Brahms á lútersku Bíblíunni í stað hinnar latnesku eins og venjan var. Brahms valdi sjálfur textana úr Gamla og Nýja testamentinu og úr apókrýfum og tilgangur hans með messunni var að hugga þá sem eftir lifa fremur en að beina athyglinni að sálum hinna látnu. Þrátt fyrir óhefbundinn texta varð þýska sálumessan umsvifalaust viðurkennd sem meistaraverk og festi hún Brahms í sessi sem tónskáld á alþjóðlegan mælikvarða.

Sálumessa Brahms er snilldarverk. Hann nýtir orkuna í kór og hljómsveit með einstökum hætti og úr verður gríðarlega kraftmikið og áhrifaríkt verk.

Alls taka um 100 manns þátt í flutningum í Neskirkju. Neskirkja tekur eingöngu 300 manns í sæti og óhætt að fullyrða að ekki gefist betra tækifæri til þess að fá orkuna úr verkinu beint í æð í mikilli nálægð við kór, hljómsveit og einsöngvara.

Látið ekki þetta tækifæri fram hjá ykkur fara.

Miðar fást í Tix.is