Tónleikar
22. apríl kl. 20
Neskirkja

Tólf blik og tónar
við ljóð Snorra Hjartarsonar

Kór Neskirkju fagnar vori með útgáfutónleikum í tilefni nýútkomins hljómdisks. Flutt verður kórverkið Tólf blik og tónar sem ofið er úr tólf ljóðum Snorra Hjartarsonar. Verkið er eftir Steingrím Þórhallsson, stjórnanda kórsins, og var það frumflutt fyrir réttu ári. Tónleikarnir nú eru á afmælisdegi Snorra. Flutningur hvers þáttar hefst á ljóðalestri.

Flytjendur: Kór Neskirkju og Gunnar Þorsteinsson, þýðandi og þulur. Stjórnandi: Steingrímur Þórhallsson.

Miðar á tix.is og í anddyri Neskirkju fyrir tónleika
Hljómdiskurinn verður til sölu í anddyri kirkjunnar fyrir og eftir tónleika

Höfundur verksins segir að kveikjan að því hafi verið hvatning til hans frá Hirti Hjartarsyni, félaga í kórnum, um að hann semdi kórlag við eitt ljóða Snorra. Lögin urðu tólf og var verkið frá upphafi hugsað sem ein heild. Til að magna flutning verksins verður sá háttur hafður á að ljóðin verða lesin á undan flutningi laganna. Tónmálið fylgir ljóðatextunum og lögin eru flutt í röð sem myndar óræðan þráð er teygir sig frá myrkri í átt að ljósi.

Upptökur fóru fram í Neskirkju, í nokkrum hlutum, frá hausti 2018 fram til mars 2019. Steingrímur tileinkar verkið Kór Neskirkju.

„Einlægni og heiðarleiki skipta öllu máli. Ég vona að það sjáist í kvæðum mínum.“ – Snorri Hjartarson
Í ljóðum Snorra er fegurð og góðvild eitt og hið sama. Umkomulaus í rangsnúnum heimi en mun þó lifa allt. Vonin vakir þótt leitað sé um dimma heiði eða þokuslunginn veg. Án vonar ekkert líf og maðurinn er aldrei einn á ferð. Að lokum opnast leiðin heim, vörðuð táknum úr ljóðveröld skáldsins. Allt þar til haustar og laufið fellur. Svo vorar á ný.

Snorri Hjartarson var fæddur árið 1906 og lést liðlega áttræður árið 1986. Snorri er skáld náttúrunnar og árstíðanna, skáld litanna og sólarinnar. Ljóðabækur Snorra urðu fjórar talsins: Kvæði (1944), Á Gnitaheiði (1952), Lauf og stjörnur (1966) og Hauströkkrið yfir mér (1979). Allar eiga þær fulltrúa í þessum kórlagasveig og eitt kvæðið er úr eftirlátnum ljóðum.
Fyrir síðustu bókina hlaut Snorri Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 1981. Árið 1986 sæmdi Heimspekideild Háskóla Íslands Snorra heiðursdoktorsnafnbót og er hann einn örfárra skálda sem hana hafa hlotið.

Steingrímur Þórhallsson (1974) er organisti og kórstjóri í Neskirkju, menntaður á Íslandi og í Róm. Hann nam tónsmíðar við Listaháskóla Íslands og lauk meistaragráðu 2018. Eftir hann liggja fjölmörg píanóverk, orgelverk og kórverk ásamt verkum fyrir kór, einsöngvara og hljómsveit.

Tónverkið og upptökur nutu styrkja frá eftirtöldum aðilum:
Tónskáldasjóði RÚV og STEFs
Hljóðritasjóði
Hljómdiskasjóði STEFs