Petite Messe Solennelle eftir Gioachino Rossini 18. nóvember kl. 17

Kór Neskirkju, Hallveig Rúnarsdóttir sópran, Sesselja Kristjánsdóttir messósópran, Gissur Páll Gissurarson tenór og Fjölnir Ólafsson bassi flytja Petite Messe Solennelle eftir Gioachino Rossini á tónleikum í Neskirkju 18. nóvember næstkomandi. Píanóleikur er í höndum þeirra Hrannar Þráinsdóttur og Evu Þyriar Hilmarsdóttur og Erla Rut Káradóttir leikur á harmóníum. Stjórnandi er Steingrímur Þórhallsson.

Mörg hástemmd orð hafa fallið um þetta meistararverk Rossini. En orð um tónlist eru lítils virði fyrir þá sem eiga þess kost að upplifa hana sjálfir, og nú er tækifærið. La Petite Messe Solennelle, eins og tónskáldið nefndi verkið, er fjarri því að vera tónlist sem er smá í sniðum,  þrátt fyrir heitið og hún er sannarlega melódísk, taktföst og fjörug. Að þessu sinni verður verkið flutt eins og Rossini vildi helst að það væri flutt, með kór, fjórum einsöngvurum og einfaldri hljóðfæraskipan.

Þegar Gioachino Rossini (1792-1868) var 37 ára hafði hann samið yfir 40 óperur. Ekkert tónskáld naut viðlíka vinsælda og velgengni á fyrri hluta 19. aldar og hann. En eftir að hafa lokið við að semja Vilhjálm Tell dró Rossini sig í hlé á hátindi frægðar sinnar. Hann kenndi um tíma í Liceo Musicale í Bologna og einnig í Flórens, og átti við erfið og þjáningarfull veikindi að stríða. Árið 1845 dó Isabella, eiginkona tónskáldsins, og árið eftir kvæntist hann Olympe Pélessier, konu sem hann hafði búið með um 15 ára skeið og annaðist hann í veikindunum. Á þessu tímabili samdi Rossini nánast ekki neitt. Árið 1855 fluttust þau Rossini og Olympe til Parísar, þar sem Rossini hafði áður búið um tíma. Þá brá svo við að hann náði aftur fullri heilsu og löngunin til að semja tónlist vaknaði á ný svo um munaði. Hann samdi yfir 150 verk fyrir píanó, sönglög og verk fyrir minni tónlistarhópa. Þar á meðal er La Petite Messe Solennelle.

Fögnuður, endurnýjaður kraftur og sköpunargleði tónskáldsins geislar af verkinu þannig að enginn getur annað en látið hrífast með. Rossini dó eins og hann lifði, elskaður og dáður fyrir verk sín.

Miðasala: https://www.tix.is/is/event/5240/rossini-petite-messe-solennelle/

og við inngang klukkustund fyrir tónleika

 

Afmælisárið í Neskirkju er viðburðarríkt. Hér má blaða í gegnum bækling sem útbúinn hefur verið og hefur að geyma yfirlit yfir helstu dagskrá ársins.