Krossgötur mánudaginn 26. janúar kl. 13.00. Þórunn Sigurðardóttir, prófessor emerita flytur erindi sem heitir: „Ég elskaði, ég missti mitt elskulegasta barn“. Viðbrögð við ástvinamissi eru talin mótast af sögulegum og menningarlegum þáttum. Í hverju samfélagi eru venjur og viðmið sem ákvarða hvernig skuli bregðast við andláti og missi, bæði opinberlega og í einkalífi. Á 17. öld var lögð áhersla á að syrgjendur stilltu sorgarviðbrögðum sínum í hóf og létu huggast í von um að hitta hinn látna ástvin á himnum.
Raunar áttu syrgjendur að fagna því að hinn látni væri nú hólpinn í faðmi lausnarans, eins og fram kemur í ýmsum huggunarbókmenntum frá þessum tíma. Í fyrirlestrinum ætla ég að sýna fram á ákveðna togstreitu á milli hefðbundinnar huggunar vegna ástvinamissis og hinnar djúpu sorgar sem heltekur foreldra sem missa afkomanda sinn sem birtist í tveimur harmljóðum frá árnýöld.
Annað kvæðið orti sr. Stefán Ólafsson í Vallanesi eftir bróðurson sinn og setur í orðastað föður unga mannsins. Hitt harmljóðið orti Brynjólfur Þórðarson Thorlacius eftir son sinn Skúla.