Síðastliðið vor bauð Anna Júlía sjónlistaráði Neskirkju á fund á vinnustofu sinni, þar sem hún leiddi okkur inn í hugmyndvinnu að þeirri sýningu sem við opnum núna í þessum töluðu orðum. 

Morse
Verk listamannsins hafa krafist mikillar vinnu og það er eins og svo oft í þessum efnum, að hinn sýnilegi afrakstur er ekki nema hluti af því sem að endingu er valið til birtingar. Það hefur verið gefandi að fylgjast með gerð þessara verka, kynnast innblæstri, nálgun og tengingum sem listamaðurinn vill greina og benda á, að ógleymdu því erindi sem Anna Júlía vill eiga við okkur.

Þegar ég gekk til kirkju árla morguns, blöstu ljósaperurnar við mér í rökkrinu. Þær tala tungumál liðins tíma. Sýningin vísar til horfinnar veraldar morse-samskipta sem rekur upphaf sitt til fyrri hluta 19. aldar. Samskiptamáti þessi samanstendur af nokkrum stöfum sem myndaðir eru með löngum boðum eða stuttum. Stafirnir sjálfir vísa svo til fastmótaðra skilaboða, ákveðið kerfi sem fólk þurfti að kunna skil á, rétt eins og gildir með öll tungumál. Öll þekkjum við SOS táknið og til skamms tíma ómuðu þrjú stutt, tvö löng og þrjú stutt úr símum fólks – morse táknið fyrir SMS. Við getum litið á þann óm sem svanasöng morse-tungumálsins. 

Þessi hátækni liðinna tíma er heillandi og til að undirstrika það tekur gamla loftskeytastöðin við Brynjólfsgötu þátt í gjörningnum. Hún gegndi lykilhlutverki á sínum tíma þegar morsið var helsta samskiptatækið í fjarskiptum. Anna Júlía hefur komið fyrir samsvarandi ljósum á þakskeggi hússins. 

Morsið er látleysið uppmálað – ekkert er í boði nema langt og stutt – en það býður um leið upp á margháttuð samskipti. Á sömu lögmálum hvílir líka öll tölvutækni nútímans. Kveikt og slökkt, skapar takmarkalausa túlkun og tjáningu. Með sama hætti eru verk Önnu Júlíu bæði einföld og margbrotin. 

Ljósaperur í glugga kunna í fyrstu að líta út eins og jólaserían sem hangir „enn þá uppi frá því í hitteðfyrra“, eins og segir í laginu. En þegar við gefum okkur næði og stöldrum við, kynnum okkur hvað býr þarna að baki, þá rennur það upp fyrir okkur að þetta er einmitt kóði settur saman úr táknum. 

Einfalt og margbrotið
Við sem rýnum í Biblíuna þekkjum vel þá tilfinningu að lesa yfir texta sem kann að virðast fábrotinn á yfirborðinu en við nánari rannsókn opnast lesandanum hvert lagið á fætur öðru og eftir stendur tímalaus ómur sem á jafnvel meira erindi við samtíma okkar en var í upphafi þegar orðin voru skráð.

Þetta á við um eina kunnustu frásögn Biblíunnar, sjálft syndafallið – söguna af Adam og Evu í aldingarðinum. Þessi frásögn ber með sér einkenni þess að hafa verið upphaflega einhvers konar leikþáttur. Þar birtast okkur talandi höggormur og svo auðvitað þessir atburðir sem svo er lýst:

Þá heyrðu þau [Adam og Eva] til Drottins Guðs sem gekk um í aldingarðinum í kvöldsvalanum og maðurinn og kona hans földu sig fyrir augliti Drottins milli trjánna í aldingarðinum. Drottinn Guð kallaði á manninn og sagði við hann: „Hvar ertu?“ Og hann svaraði: „Ég heyrði til þín í aldingarðinum og varð hræddur því að ég er nakinn, og ég faldi mig.“

Seinni tíma hugsuðir sem lögðu út af þessum texta áttu eftir að staldra við þessi samskipti. Maðurinn var á leið út úr hinu óspillta umhverfi sem Biblían talar um að séu hans eðlilegu heimkynni. Hann braut þau lögmál sem giltu í aldingarðinum og nú fann hann fyrir blygðun gagnvart nekt sinni. Hann faldi sig fyrir Guði. 

Hér er því fjallað um fjarlægð mannsins og flótta, bæði frá því sem er honum upprunalegt, aldingarðurinn, og eins því sem á að vera áfangastaður hans, sem er vilji Guðs. Ákallið hljómar yfir höfði hans: „Hvar ertu?“ 

Svarið sem Adam gaf Guði, var ekki betra en svo að guðfræðingar hafa löngum litið svo á að enn væri maðurinn að reyna að finna svar við þessari tilvistarlegu spurningu. Á krossinum hrópaði Kristur: „Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?“ Sumir hafa litið svo á, að angistarhróp þetta tali inn í heim firringar og tóms og sé sem slíkt, svar við ákalli Drottins til Adams.

Vistarverur
Nú stöndum við frammi fyrir þeim veruleika að það sem menn kölluðu „tilvistarspurningar“ í háskólum fær nýja á merkingu. Þær eru ekki lengur fræðilegar heldur varða þær tilvist þess sem lifir og hrærir á þessari jörð. Tilvist er ekki aðeins spurning um veru eða óveru í heimspekilegum skilningi. Hún er hluti af valkostum sem varða allar athafnir okkar og ákvarðanir.

Þetta túlka listamennirnir jafnvel enn betur en vísindin geta gert. Ljóðabók Hauks Ingvarssonar, Vistarverur, kallast á við þessa hugsun þar sem skáldið hugleiðir tilvist fólks sem horfir máttvana og aðgerðarlaust upp á heim sem stefnir á heljarþröm. Í niðurlagi eins ljóðsins segir:

ég segi það engum
en inní mér sökk skip
ég horfði á slysið
og reyndi ekki að bjarga neinum
hlustaði á öskrin
það voru voðaleg læti
á eftir fylgdi mikil þögn
kæfandi þögn

Yfirskrift þeirrar sýningar sem opnar hér á eftir tengir hugann við skipbrot eins og hér er ort um. Yfirskriftin gæti einnig verið útlegging á ákalli Guðs, þar sem hann leitaði Adam í aldingarðinum: „Ég hef misst sjónar af þér.“ Við sjáum fyrir okkur skip sem rekur um stjórnlaust í óveðrinu, skipbrotsmenn veltast um á gúmmítuðru í ólgusjó. Ský dregur fyrir tunglið og björgunarmenn senda þessi boð út í myrkrið. Þau orðar Anna Júlía með tákninu EP sem ljósaperur í glugga kirkjunnar mynda.

List og vísindi
Ljósastæðurnar kallast svo á við steingervinga á veggjum Torgsins í safnaðarheimilinu. Listamaðurinn raðar þeim líka upp svo þeir mynda löng og stutt tákn. Sem slíkir birta þeir okkur bókstafi sem flytja skilaboð í morse-kerfinu. Þetta eru tennur hvalategunda í útrýmingarhættu, þörungar úr aldingarði hafsins – sem eru réttnefnd lungu jarðar, skeljar og kórallar. Allt á það undir högg að sækja í súrnandi hafi, vegna mengunar, ofveiði og annarra afleiðinga lífshátta samtímans. 

„NC“ merkir: „Ég er í hættu og þarfnast hjálpar tafarlaust.“ „NF – Þú stefnir í voða.“ „QL“ þýðir „Snúið við!“ 

Við vitum í hvaða samhengi morse-kóðinn nýttist en hér verður hann örvæntingarfullt ákall eins og í Edengarði. Undir hana taka velflestir fulltrúar vísindasamfélagsins en þeirra skýringar einar og sér, hrökkva skammt til að fá okkur til að hlýða því kalli.

Til þess þurfum við liðsstyrk þeirra sem fara með táknin, skáldin sem rita boðskapinn í ljóð og prósa, listafólkið sem predikar á veggjum, í gluggum og víðar. Allt vinnur það að því að miðla okkur þessum boðum, eins og við segjum við fermingarbörnin: ef við ætlum að breyta heiminum þá byrjum við á okkur sjálfum. Um leið og við breytum hegðun okkar og hátterni þá höfum við líka breytt heiminum – því við erum hluti hans. 

Við skulum gefa okkur tíma til að virða fyrir okkur þessi verk. Textar dagsins tala inn í samfélag sem er hluti af náttúrunni. Brýning Biblíunnar minnir okkur á ábyrgð okkar gagnvart sköpuninni. En um leið fylgja áminningunni alltaf gagnstæð skilaboð. Vonin er alltaf til staðar. Þegar hún lifir, þá er möguleiki og þá er framtíð. 

Áminning og von
Þessu miðla textar dagsins til okkar. Í Davíðssálmum er Guði líkt við ungamóður sem umvefur afkvæmin vængjum sínum og fjöðrum. Og í guðspjalli og pistli er talað um afrakstur náttúrunnar – uppskeruna sem hlýst þar sem alúð hefur verið lögð í jarðveginn og ávöxtum hennar verið sinnt af hófsemi og natni. 

Sá texti er líka vonarríkur því hann minnir á það hvað starf þeirra sem flytja hin góðu tíðindi getur vaxið og margfaldast. Kristnir söfnuðir út um allan heim taka nú virkan þátt í umræðunni um umhverfisvernd. Þar hefur fólk túlkað gullnu regluna á þann hátt að hún varði ekki aðeins okkar núlifandi systkini, þau sem eru með okkur frá degi til dags – heldur ekki síður afkomendurna sem eiga eftir að ganga um á þessari jörðu á komandi tímum. 

Listamenn tala til okkar á þann hátt sem vísindin geta ekki gert þótt niðurstöður séu skýrar. Það gera verk Önnu Júlíu á þessari sýningu sem flytur þennan tímalausa og tímabæra boðskap um firringu og fjarlægð mannsins frá uppruna sínum og köllun. Ég hef misst sjónar á þér – eru þetta orð Guðs til mannsins, er þetta staða hans gagnvart umhverfi sínu? 

Hér í kirkjunni heyrum við sem fyrr boðunina um ábyrgð okkar, skyldur okkar gagnvart Guði og náunganum, áminninguna að láta ekki sérhyggju og tómlæti ráða för í umgengni okkar við hin æðstu verðmæti. En um leið er allt líf kristins manns er umlukið birtu vonarinnar. Það er hún sem er að endingu hið mikilvægasta nesti á vegferð okkar til betri framtíðar. 

(Flutt í tilefni af opnun samnefndrar myndlistarsýningar Önnu Júlíu Friðbjörnsdóttur í Neskirkju 10. nóvember 2019)