Predikun Jakob-Fischer Möllers, biskups í Hróaskeldu, flutt í Neskirkju 13. otkóber 2019

17 sunnudagur eftir þrenningarhátíð, Mark. 9, 14-29,

Guð, lát okkur lifa af orði þínu eins og daglegu brauði á þessari jörðu. Amen.

Frásögn Markúsar af flogaveika drengnum, ráðvilltum föður hans og máttvana lærisveinum, er frásögn sem á erindi til okkar, þegar við, sem erum annars svo máttug, finnum fyrir vanmætti okkar. „Allt getur sá er trúir,“ segir Jesús og faðirinn svarar: „Ég trúi, hjálpa þú vantrú minni!“ Á hvað trúum við og hvernig birtist trú okkar í lífinu, eins og það mætir okkur í allri sinni fjölbreytni? Hvernig tölum við um það hvert við annað og við Guð?

Náttúruvísindin segja okkur að alheimurinn sem við erum hluti af, eigi upphaf sitt fyrir 15 milljörðum ára með Miklahvelli, gríðarlegri sprengingu og á milljörðum ára urðu vetrarbrautir og sólkerfi til og loks jörðin okkar. Við vitum að lífið hefur þróast hér á plánetunni á yfir milljarði ára, frá örsmáum einfrumungum til þeirra margbreytilegu dýra og plantna sem við þekkjum í dag.

En er þetta allt sem við getum sagt um lífið hér á jörðinni? Er þetta allt sem við getum sagt um líf mannsins? Nei, segir kristindómurinn í samhljómi með öllum trúarbrögðum heimsins. Í Biblíunni er það túlkað með þeim hætti að veröldin sé sköpuð af Guði. Að Guð kalli heiminn fram úr engu, að jörðin og lífið eru tjáning á vilja Guðs. Og að lífið hefur gildi í sjálfu sér, bara með því að vera til, eins og það er.

Þetta gengur eins og hljómkviða eftir hvern dag sköpunarinnar: „Og Guð sá að það var gott,“ því – eins og við höfum heyrt – má draga það saman í að: „Guð sá allt sem hann hafði skapað og hann sá hversu gott það var.“

Séð frá sjónarhóli náttúruvísindanna er maðurinn bar eitt af dýrunum, dýr sem hefur vissulega mjög þróaðan heila, en ekki sköpun, sem greinir sig frá allri annarri sköpun.

Frásögn Biblíunnar er því ekki andstæð þeirri skoðun að maðurinn sé sköpun ásamt annarri sköpun, en þar bætist annað við. Nefnilega það að maðurinn greinir sig frá öðru í sköpunarverkinu fyrir það að hann er skapaður í Guðs mynd.

Og sem slíkur veit hann að hann hefur tekið að sér að bera sérstaka ábyrgð á öllu sköpunarverkinu. Stýra því, eins og góður stjórnandi leitast við að verja hina veiku og stjórna þeim sterku, svo heildin sundrist ekki, svo sköpunarverkið geti haldið áfram að vera í það minnsta jafngott og það sem Guð sá í upphafi.

Hvaðan kemur þá þessi hugmynd að maðurinn sé skapaður í Guðs mynd. Ég tek undir með Grundtvig [danskur prestur á 19. öld, sálmaskáld og menntafrömuður], að hluti þess sem raunverulega greinir okkur frá dýrunum eru orðin, það að við getum komið orðum á heiminn, það að við getum talað saman um lífið sem við deilum hvert með öðru. Það að við getum snúið okkur til Guðs í lofgjörð og bæn. Með orðunum getum við uppgötvað heiminn. Við setjum orð á það sem við sjáum, og við komum auga á það sem við höfum orð yfir.

Þegar við heyrum að Guð skapaði heiminn með orði sínu, þannig ná okkar orð að skapa okkar heim. Þessu kynnumst við til dæmis hversdagslega með okkar nánustu. Þar sem orðin: „Góðan daginn elskan mín“ kveikja innra ljós og lyfta upp deginum. Það, þegar frásögn kveikir í ímyndunaraflinu og opnar skynfærum okkar nýjar leiðir, og þar sem setningin: „Ég trúi því sem þú segir“ býr til traust, sem gerir samtal og skilning mögulegan.

En orðin geta unnið á annan hátt. Eitt orð er sett fram í efa eða hvíslandi öfund – og heimur okkar verður óstöðugur. Eins og slangan hvíslaði í eyra Evu hvort það væri víst ekki saklaust að brjóta reglur Guðs um neyslu ávaxtanna í paradísargarðinum, eins og hafði fyrst haldið.

Og hafi vantraustið læðst inn og fest rætur, þá er það einmitt það sem leggur línurnar. Þá leysast samskipti fólks upp og tilfinningin að eiga sinn stað í lífinu, þróast yfir í það að hver og einn hugsar aðeins um sjálfan sig. Þá hefur lögmál frumskógarins tekið yfir.

Þetta þekkjum við frá mörgum brotnum hjónaböndum og samböndum í gegnum tíðina. Sú var tíðin að traustið var einfaldlega til staðar og fólk trúði sjálfkrafa orðum hvors annars og setti traust sitt hvort á annað og fékk á móti huggun og innblástur með því að deila orðum sínum hvort með öðru.

En þá læddust að svolítil ósannindi, sem urðu að stærri lygi, sem ruddu brautina fyrir vantraustið, sem á skammri stundu eitraði sambandið, svo það sem fyrir fáeinum mánuðum leit út eins og fallegur garður, varð að skotgröfum vantrausts.

Úti í hinum stóra heimi og í tilveru okkar hvert með öðru sjáum við hvernig líf getur lent í fjötrum í sjúkdóma eða ógæfu, við sjáum líf sundrast og heyja stríð eins og þá skelfilegu borgarastyrjöld sem nú hefur geysað í á níunda ár á Sýrlandi.

Fyrst leituðust menn við að taka á loftslagskreppunni fyrir heilum 32 árum á fundinum í Río árið 1987. Okkur hefur ekki tekist að gera neitt raunverulega í málinu, svo nú eru það börnin sem þurfa að fara í skólaverkfall fyrir sjálfbærri framtíð. Þetta er þungbært og erfitt og það skapar óreiðu í lífi okkar mannanna. Það gerir líka trúna reikula og fær okkur til að fálma eftir merkingu. Það er margt sem getur dregið úr hugrekki okkar og slökkt vonina.

Það var hér sem Jesús steig inn, með trúarstyrk, með hugrekki og von sem aldrei gafst upp. Það lýsti af þeim sögum sem hann sagði, um vaxtarmátt frækornins, um fjárfestinguna í talentunum, um tilboðið að vera með í veislumáltíðinni stóru í ríki Guðs.

Og orðin skópu það sem orðuðu, nærð af þeim kærleika sem lýsti út yfir allt, það sem hann sagði og gerði. Í kringum Jesú gerðist raunverulega það, að hrjáð og hrætt fólk fékk hugrekkið aftur, að vonlausir fundu fyrir því að líf þeirra hafði aftur merkingu, að veikir urðu heilbrigðir.

Von var kveikt, von um að lífið þurfti ekki að vera áfram í deyfð að tilveran gæti batnað, já að það kynni jafnvel einn dag að verða sannarlega gott, eins og það hafði verið í árdaga.

En það þurfti ekki svo mikið til að veikja hina nýorðnu trú og vaxandi von. Því heimurinn varð jú ekki fyrir tilstilli galdra að paradís. Nú var það til dæmis þessi flogaveiki drengur sem lærisveinarnir vildu svo gjarnan verða að liði en þeir gátu bara ekki komið með neina lausn.

Þetta er víst reynsla sem mörg okkar kannast við, það að við höfum hinn besta vilja, við viljum svo gjarnan hjálpa og styðja, en það bara gerist ekki, já í sumum tilvikum verður allt bara enn verra og flóknara þegar við förum að skipta okkur af.

Og maður hugsar með sér: er staðan þá ekki bara alveg vonlaus, eða er það ég sem er vandamálið? Eða snýst þetta um það að við lítum raunsönnum augum á málin. Hlutskipti okkar í þessum heimi eru að efni og kröftum og aðstæðum er útdeilt með ójöfnum hætti, og að við verðum bara að fá svo mikið út úr okkar litlu tilveru sem við mögulega getum. Og við getum farið að hugsa: „þeir eiga líklega sök að þeim vanda sem reyna að leysa“, „hver er sjálfum sér næstu“ og „hver er sinnar gæfu smiður“.

En Jesús velur aðra leið. Já, fyrst verður hann hreinlega á gamaldags hátt, reiður náunga sínum og hinum hópnum sem gafst líka upp, fyrir dugleysi sitt. En í framhaldinu þá nýtir hann sjálfur mátt orðanna. Hann gefur sig að ógæfusömum föðurnum og ræði við hann, hann hlustar á viðbrögð hans og hugmyndir um veikan son sinn og ákalli hans um hjálp. Og þá koma þessi sterku og kröftugu orð frá munni Jesú: „Ef þú getur. Sá getur allt sem trúir!“

Það er að segja: þetta snýst ekki aðeins um breytingu á hinum ytri aðstæðum, um að lækna veika eða hjálpa nauðstöddum. Nei, þetta snýst lika og ekki síður um að virkja krafta manneskjunnar, virkja trúna og vonina og kærleikann sem sameinar lífið með tilgangi og gefur tilverunni stefnu og þýðingu, að manneskjan skynji það sjálf að hvert og eitt okkar hefur verkefni og getur haft áhrif.

En eru þetta þá ekki aðeins orð? Getum við lagt eitthvað fram andspænis þessu erfiða viðfangsefni? Getum við gert eitthvað fyrir þennan veika dreng og allt það böl sem við sjáum í heiminum og í lífi okkar sjálfra? hvað segjum við? Mögulega: „Ég trúí, hjálpa þú vantrú minni!“

Við erum einmitt á þessum stað. Hér, þar sem við þekkjum mikinn mátt orðanna og merkingu, ábyrgðina sem á herðum okkar hvílir fyrir að láta allt vera í sama horfinu, ábyrgðina sem við höfum til að láta ekki vanmáttinn og vantrúna læðast inn og eyðileggja samtal á milli fólks og möguleikann á að geta í samfélagi hlúð hvert að öðru og að heiminum.

Það er hérna þar sem við þurfum að velja hvort við látum það stjórna lífi okkar sem við köllum kaldar staðreyndir heimsins, eða hvort við þorum að taka Jesú á orðinu og þorum að trúa frásögn hans. Þorum að bretta upp á ermarnar og koma orðum að þakklæti okkar fyrir undri lífsins og vanmætti okkar gagnvart þjáningum og dauða, með því að biðja Guð um hjálp, þar sem við sjálf höfum ekki burði til að takast á við tilveruna.

Orð bænarinnar tengja okkur við Guð, orð bænarinnar kalla fram trúna. Trúna um að heimurinn er annað og meira en vígvöllur, þar sem við, hvert í sínu lagi, reynum að spjara okkur eins og við mögulega getum. Trúna á að lífið er grundvallað á því sem er gott, að það opnar sig þegar við þorum að deila bæði hinu gleðilega og hinu erfiða hvert með öðru. Trúna á hann, sem gaf líf sitt til að geta náð til hvers og eins okkar með boðskapnum um að við, mitt í þessu stórbrotna, merkilega, indæla og erfiða lífi erum umlukin vitund og kærleika þess Guðs sem skapaði heiminn og okkur og sem í leiftursýn lætur okkur skynja hversu góður hann er. Amen.