Þrenningarhátíð er í dag. Já, þetta er einn af þessum á kirkjuárinu sem bera sannarlega stór nöfn en hafa lítil áhrif á hið veraldlega almanak.

Talað um þrenningarhátíð
Að þessu sinni stendur hátíðin á milli tveggja merkisdaga. Hvítasunnan er nýliðin og framundan er þjóðhátíðardagurinn sjálfur. Hún er stöðugt á vörum okkar hér á þessum vettvangi, þrenningarhátíðin. Við kennum næstu 23 sunnudaga við hana allt þar til kominn er dimmur vetur og aðventan gengur í garð.

Þetta er hátíð heilagrar þrenningar og þrenningin í kristinni trú er vissulega rammpólitískt mál og afstaða guðfræðinga til hennar hefur mótað menningarheima og teiknað landamæri. Það er líka fjarri því sjálfgefið að kristnir hugsuðir skyldu boða þá kenningu að guðdómurinn sé ekki bara einn og óskiptur heldur þríeinn. Almennt held ég að fólk þurfi að setja sig í ákveðnar stellingar til að samþykkja slíkt nokkuð og hugsunin er um margt óvenjuleg. Kristin kirkja hafði staðið fyrir því sem við köllum eingyðistrú og byggði á þeim grunni sem gyðingdómurinn var. Postular og trúboðar höfðu amast yfir því þegar fólk átti marga Guði, og fyrsta boðorðið bannar einmitt slíkan átrúnað.

Þrenningin
Það olli líka miklum ágreiningi þegar höfundar fornkirkjunnar tóku að fjalla um Guð sem þrenningu. Stórir hópar kristinna manna klufu sig út úr þeirri kirkju sem konstantín keisari hafði gefið frelsi til að starfa á fjórðu öld og mynduðu nýja söfnuði. Þó hafði sú hugsun oft borið á góma, allt frá fyrstu öld. Og ekkert er nýtt undir sólinni. Þetta varð sístætt stef í kristnisögunni fram eftir öldum og er enn. Hér uppi á Íslandi á 19. öld hallaðist séra Matthías Jochumsson, sjálft þjóðskáldið, að því að aðrar leiðir væru heppilegri í þessum efnum. Hann var hallur undir trúfélag únitara, sem einmitt voru lítið gefnir fyrir þessa hugmynd um þríeinan Guð.

Únítarinn Matthías
Á þeim tíma sáu eldhugar eins og Matthías þörf á endurbótum á kirkjunni hér heima á fróni. Þetta var eitt dæmi af mörgum um það hversu mjög hefur verið tekist á um hugmyndirnar innan kristindómsins. Snarpasta gagnrýni í þeim efnum hefur jafnan komið að innan frá. Sagan er uppfull af frásögnum af fóki sem vildi breyta og bæta þá kirkju sem það hafið alist upp við. Stundum fóru slíkar umbætur fram, margar klausturhreyfingar innan rómversk kaþólsku kirkjunnar eiga rætur að rekja til slíkrar viðleitni. Á öðrum tímum var þetta harkalegra og mikil átök urðu, Wycliff á Englandi, Húss í Bæheimi og auðvitað Lúther í Þýskalandi, hugmyndir þeirra, leiddu af sér heilmikið vopnaskak.

Og hér erum við á miðri þrenningarhátíð. Engir fánar blakta við hún við stofnanir og heimili, skrúðgöngur bíða morgundagsins og ráðamenn flytja ekki ávörp. Hvað er þetta með þessa þrenningu sem hefur bæðið kostað miklar fórnir og í raun í seinni tíð horfið einhvern veginn í gleymskunnar dá.

Tilraun til að skilja hið takmarkalausa
Orðið ,,þrenning” á rætur að rekja til viðleitni breyskra og dauðlegra manna til að orða það sem stendur ofar öllum takmörkunum. Það er að segja, að lýsa því hvernig sjálfur Guð er og starfar. Í guðspjalli dagsins er þetta orðað á þessa leið: „þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum en opinberað það smælingjum.“

Já, ljóst má vera, að almættinu verður ekki lýst með þeim hætti sem á við um takmörkuð fyrirbæri þessa heims og skynsemin okkar eru svo heppileg til að fjalla um. Kristnir menn brugðu því snemma á það ráð að kenna það við þessa þrenningu. ,,Eining sönn í þrennum greinum”, yrkir Eysteinn munkur í Lilju. Við rifjuðum upp þrenninguna hér í upphafi messunnar er við gerðum krossmark og sögðum, í nafni Guðs föður, sonar og heilags anda.

Já, það er þetta þrennt sem margir telja að Biblían noti þegar hún lýsir Guði. Faðirinn, hið skapandi afl sem gerir heiminn og hvert andartak sem fæðist og deyr. Sonurinn sem birtist okkur í guðspjöllunum og sýnir okkur hvernig Guð er og starfar. Og loks andinn heilagi sem er með okkur á hverri stundu og nærist og eflist í samfélagi kristins fólks.

Þetta eru tilraunir til að orða hið ósegjanlega en um leið birtist okkur ákveðin hugsun sem mér finnst mikilvægt að halda tryggð við. Það var til að mynda fjarri því sjálfgefið á deiglutímum í öndverðu kristninnar að talað væri um að Guð hefði skapað allt hið jarðneska. Sú hugmynd lifði góðu lífi að það væri þvert á móti markmið þess sem leitaði hins æðra að hefja sig upp af jörðinni og því sem henni tilheyrði. Skaparinn væri í raun andstæða hins góða og himneska. Þessu andmæltu kristnir menn og litu svo á að jörðin væri að sönnu sköpun Guðs og allt það sem af henni leiddi.

Óður til hins jarðneska
Þegar við tilreiðum efnin í helgihaldinu, vatnið í skírninni og brauðið og vínið í altarisgöngunni þá tengist það þessum skilningi. Hið jarðneska og áþreifanlega er hluti af hinu andlega lífi. Og svo er það auðvitað þverstæðan sjálf að Guð hafi opinberast sem maður, birtist í vanmætti hvítvoðungsins, stóð utangarðs í samfélaginu, gaf sig að þeim sem sjálfir stóðu höllum fæti og mátti þola hinar verstu raunir.

Loks er það hjálparinn sem lifir með okkur hverja stundu og svarar kallinu þegar trúað fólk kemur saman og leitar æðri gilda. Allt er þó breytingum undirorpið og við skynjum það sterkt hvernig fallið hefur á þau verðmæti á okkar síðustu tímum. Fólk leitar tilgangs og merkingar, á því held ég að leiki enginn vafi. Spurningin er bara sú hvar sú leit fer fram og hvert fólk fálmar eftir æðri gildum og þýðingu. Löngum var það einmitt sú afstaða að hver manneskja væri dýrmæt sem fyllti þetta tóm, hvert og eitt okkar umvafin ást Guðs.

Trúir Guð á okkur
Sú hugmynd að við trúum á Guð, og þá ekki síður að Guð hefur trú á okkur, fyllir okkur kærleika til náungans og krafti þegar á móti blæs. Margir hugsuðir hafa rýnt í samtíma okkar og spurt hvað hafi fyllt það mikla tóm sem myndaðist þegar sú hugsun tók að dofna. Veraldarhyggjan sótti á úr öllum áttum, þó ekki sú hugsun að jörðin, moldin, afurðirnar ættu sér helgar rætur. Vatnið í skírninni og efnin sem við helgum í altarisgöngunni eru einmitt til að undirstrika það. Sú athöfn er umvafin þakklæti fyrir takmörkuð gæði jarðar, lífgefandi vatnsins og þessara gjafa jarðarinnar. Það er annað með þá hamfarastefnu sem veröldin hefur mátt þola undanfarna áratugi og verður æ verri. Ég man þá tíð þegar kirkjur og söfnuðir voru í fararbroddi í friðarhreyfingum og baráttu fyrir náttúruvernd. Þá litu margir björtum augum til framtíðar. En svo hefur allt farið á versta veg.

CO2
Á síðustu 25 árum hefur óöldin á þessum sviðum versnað til muna. Allt frá iðnbyltingu hefur styrkur koltvísýrnings vaxið í andrúmsloftinu og helmingur aukningarinnar hefur átt sér stað eftir árið 1980. Ef einhver rýnir í þessi ósköp úr fjarlægð, tíma eða rúms, þá er ekki ósennilegt að þar bregði fyrir mynd af ráðvilltu mannkyni sem anar áfram í ráðaleysi. Sú andlega leit sem kristindómurinn boðar, auðmýkt fyrir gjöfum jarðar, viðurkenning á takmörkum okkar og skylda gagnvart sköpun og skapara virðist vera víðsfjarri. Gildir þar einu þótt margir játi með vörunum. Verkin tala sínu máli. Gegn slíkri háttsemi varar ritningin á mörgum stöðum.

Biblían til okkar skilaboð um að jafnvel Guð sé sannarlega leyndardómur. En við greinum á honum þær hliðar sem við getum þekkt og fjallað um, sem skapandi afl, sem maðurinn Jesús sem gekk um á jörðinni, líknaði, læknaði, fyrirgaf og sýndi okkur hvernig kærleikurinn starfar og loks sem heilagur andi sem er okkur alltaf nærri og vekur í okkur trúna og þróttinn. Allar götur hafa kristnir menn kallað eftir umbótum, bæði á samfélagi og kirkju og sú iðja mun halda áfram. Upp úr hamfaratíð veraldarhyggjunnar mun vonandi rísa upp samfélag sem kann þá list að færa þakkir fyrir dýrmætar gjafir og heldur áfram að kryfja leyndardóma lífs og tilvistar.