Í tilefni tónleikaferðar Kórs Neskirkju til Þýskalands 12-19 júní 2018 bjóðum við ykkur á tónleika í Neskirkju miðvikudaginn 6. júní kl. 20.00 þar sem efnisskrá tónleikaferðinnar verður flutt. Það er enginn aðgangseyrir og allir hjartanlega velkomnir! Eftir tónleikana verður blómasala. Plönturnar koma, sem fyrr, úr umhyggjusamri ræktun kórstjórans og þær eru sérstaklega harðgerðar nú eftir kalt og blautt vor. Við hvetjum tónleikagesti til þess að líta á dýrðina í safnaðarheimili eftir tónleika.

Tónleikaferð kórsins stendur frá 12. til 19. júní. Haldnir verða þrennir tónleikar í borgunum Leipzig, Dresden og Berlín. Þess má geta að tónleikarnir í Berlín 18. júní verða haldnir í hinni þekktu Kaiser-Wilhelm-Gedächtniskirche. Efnisskrána prýða kórverk eftir íslensku tónskáldin, Önnu S. Þorvaldsdóttur, Svanfríði H. Gunnarsdóttur, Þóru Marteinsdóttur, Snorra Sigfús Birgisson og Steingrím Þórhallsson. Lögin eftir Steingrím eru flest við ljóð Snorra Hjartarsonar og eru hluti þeirra laga sem mynduðu kórverkið Harpa kveður dyra – Tólf blikar og tónar sem frumflutt var í Kristskirkju í apríl síðastliðnum. Tvö þýsk kórverk eftir Johannes Brahms eru einnig á efnisskránni.