Ókominn slóði
Styrmir Örn Guðmundsson
Styrmir sýnir flennistórar teikningar af gáttum að veraldlegum víddum, áþreifanlega og sjónræna upplifun, vitnisburður um takmarkalausa möguleika mannlegs ímyndunarafls. Í teikningum sínum reynir Styrmir ekki að teikna umhverfið eins og hann sér það heldur fer á hugarflug um það svo úr verður umhverfi eins og úr öðrum heimi. Svartar, litríkar og andlegar myndirnar umlykja áhorfandann svo það er líkt og hann geti gengið inn í myndirnar. Þegar pensilstrokur og bleklínur Styrmis dansa um pappírinn enduróma þær hrynjanda tilverunnar sjálfrar – síbreytilegar, ógnvænlegar og hrífandi. Líkt og í fyrri verkum sínum segir Styrmir sögur með teikningunum sem eru gjarnan kosmískar, yfirskilvitlegar og jafnvel dularfullar. Styrmir er stórhuga sagnamaður og ólíkindatól sem veltir fyrir sér hinu fjarstæðukennda í lífinu sem og dauðanum. Listamaðurinn lítur á gáttirnar sem myndbirtingu upplifana fólks sem hefur komist í nálægð við dauðann.
Styrmir Örn Guðmundsson (1984) býr og starfar sem myndlistarmaður á Íslandi. Frá 2005-2023 starfaði hann í Amsterdam, Varsjá og Berlín. Hann er kenndur við gjörninga, teikningar, skúlptúr og tónlist. Listformin fléttast saman í eitt og frásagnir einkenna sköpun Styrmis. Sögur þróast úr einu í annað, því getur teikning á pappír þróast yfir í tónlist eða skúlptúr sem verður efniviður að gjörningi. Sögurnar hafa hvorki upphaf né endi, þær eru frásagnir þar sem áhorfanda er boðið í töfraheim þar sem allt getur gerst. Styrmir rýnir í tilveruna. Í verkum hans er hefðbundnum gildum hafnað og tækifæri gefst til að líta á heiminn frá öðru sjónarhorni og gefa tilvistinni ný gildi. Styrmir nam við Gerrit Rietveld Akademie í Hollandi á árunum 2005-2012. Hann hefur unnið að fjölbreyttum sýningum og flutt gjörninga sína á hátíðum, í söfnum og listamannareknum rýmum víðs vegar um heim. Árið 2017 flutti hann verkið What Am I doing With My Life? í skála Litháens á Feneyjartvíæring. 2020-2021 varði Styrmir við vinnustofudvöl í Kunstlerhaus Bethanien á vegum Icelandic Art Center. Haustið 2026 verður haldin stór einkasýning á verkum Styrmis í Hafnarborg.