Krossgötur haustið 2025

MÁNUDAGA kl. 13.00

Vikulega bjóðum við upp á erindi með kaffiveitingum á Torginu í Neskirkju.
Dagskráin er fjölbreytt og tengist 
ýmsum sviðum lífs og tilveru.

September

8.
Skúli S. Ólafson, prestur: Leikir og lærðir: Kirkjuleg forysta Sigurbjörns Einarssonar
Óhætt er að segja að skipan Sigurbjörns Einarssonar í embætti biskups, árið 1959, hafi markað tímamót í kirkjusögu 20. aldar. Hann átti eftir að hafa víðtæk áhrif á kirkju og íslenskt þjóðlíf. Sjálfur minntist hann þess í ævisögu sinni. 

15.
Hjalti Hugason, kirkjusagnfræðingur: Pólitískar hugmyndir Sigurbjörns Einarssonar og Skálholtshugmyndafræðin
Í fyrirlestrinum verður fjallað um pólitísk afskipti Sigurbjörns Einarssonar á viðsjártímum. Einnig verður gerð grein fyrir tengslum þeirra við hugsjónir hans um kirkjulega og þjóðlega endurreisn Skálholts.

22.
Pálmi Jónasson, sagnfræðingur: Jónas Kristjánsson og náttúrulækningar í Hveragerði
Jónas Kristjánsson sór þess dýran eið að gerast læknir þegar móðir hans dó frá átta börnum í torfbæ í Svínadal árið 1881. Þá var hann 11 ára að aldri. Á síðari hluta ævinnar áttu náttúrulækningar hug Jónasar allan. Lífsstarfið var fullkomnað með opnun Heilsuhælisins í Hveragerði á 85 ára afmæli hans. Einstök saga af eldhuga sem barðist fyrir því að deyja frá betri heimi en hann þurfti að takast á við sem barn. Pálmi Jónasson, byggir verkið á aragrúa heimilda og dregur þannig upp eftirminnilega mynd af honum.

29.
Vigfús Bjarni Albertsson, prestur og rithöfundur: Sár græða sár: Í nærveru sorgar
Í bók sinni sem er sjálfstætt framhald af bókinni Hver vegur að heiman er vegur heim ræðir höfundurinn hvernig best megi nýta meðöl sálgæslunnar, möguleika hennar, en líka styrkleika okkar og veikleika. Umfram allt skiptir máli að við áttum okkur  á eigin stöðu í heimi áfalla og úrvinnslu.

Október:

7.
Sveinn Valgeirsson, Dómkirkjuprestur: Níkeujátningin
Liðin eru 1700 frá einu þýðingarmesta þingi sögunnar, kirkjuþinginu í Níkeu 325. Þá lagði Konstantín keisari í Róm það verkefni fyrir biskupa að komast að niðurstöðu í þeim guðfræðilegu ágreiningsmálum sem höfðu einkennt frumkirkjuna. Ekki tókst þó betur til en svo að frekari klofningur varð innan kristninnar. Sá hópur sem stóð eftir kom sér saman um játningu sem er ein af grundvallarjátningum flestra kirkjudeilda. Sr. Sveinn ræðir þessa atburði og fer yfir Níkeujátninguna svo nefndu.

13.
Ása Ester Sigurðardóttir, sagnfræðingur: ,,Guð blessi hvern þann mann, sem gerir eitthvað fyrir aumingja Ísland“
Þorbjörg Sveinsdóttir (1827–1903) var áberandi í kvennabaráttu nítjándu aldar á Íslandi. Hún var meðal þeirra kvenna sem stóðu fyrir stofnun Hins íslenska kvenfélags en það var fyrsta kvenfélagið á Íslandi sem hafði réttindi kvenna á stefnuskrá sinni. Í þessu erindi verður sjónum beint að Þorbjörgu sem baráttukonu, og þá einkum fyrir bættum kjörum kvenna í landinu. Hún var forystukona í Hinu íslenska kvenfélagi frá 1897 til dauðadags.

20.
Sveinn Magnússon, læknir: Ástand pilta í Hólavallaskóla á 18. öld
Farsóttir, harðindi og hallæri herjuðu endurtekiõ á Íslendinga á átjándu öld og léku heilsufar þjóðarinnar grátt. Skálholtsskóli var lagður niður 1784, eftir aldalanga starfsemi. Í stað hans var Hólavallarskóli settur á laggirnar i Reykjavik og tók hann til starfa 1786. Ýmsar frásagnir má finna um bágborinn aðbúnaõ nemenda í skólanum, ekki síst vegna þess hve skólabyggingin meõ heimavistinni var léleg. Í erindinu verður greint frá heilsufari nemendanna, einkum verður rakin skýrsla Sveins Pálssonar setts landlæknis, sem skoðaði alla piltana vorið 1804. Helsta sjúkdómsgreining hans er skyrbjúgur. Segja má að dapurleg lýsing Sveins Pálssonar á heilsufari skólapiltanna vegi þungt i þeirri ákvörðun yfirvalda að leggja skólann niður og flytja hann til Bessastaõa.

27.
Skúli S. Ólafson, prestur: Bændauppreisnin í Þýskalandi 1524–6
Fyrir 500 árum gerðu bændur í Þýskalandi uppreisn gegn yfirvöldum og kröfðust umbóta. Uppreisn þessi var brotin niður af mikilli hörku og kom siðbótarmaðurinn Marteinn Lúther þar meðal annars við sögu.

Nóvember

3.
Skúli S. Ólafson, prestur: Áhrifamesta bók Norðurlanda: Fræði Lúthers minni, 1525
Fræði Lúthers minni komu út í framhaldi af bændauppreisninni og má skoða tilurðarsögu þeirra í því ljósi. Fræðin eru öðru fremur útlegging á boðorðunum 10 en þar sem kemur að því fjórða leggur höfundur fram hugmyndir sínar um skipulag samfélaga, allt frá fjölskyldu til þjóðfélagsgerðar. 

10.
Már Jónsson, prófessor: Þar var og í áflogum bitinn maður. Róstur í Reykjavík árið 1790
Árið 1801 bjuggu 460 manns í hinum unga kaupstað Reykjavík, þar á meðal allstór hópur Dana. Um bæinn hafði Sveinn Pálsson viðhaft þau orð níu árum fyrr að þar væru aðgerðarlausir bæjarbúarnir ,,að því komnir að éta hverir aðra sakir skorts á öllum nauðsynjum.“ Þó vildi hann hvergi annars staðar vera og bestu vinir hans bjuggu þar nærri, enda hafði hann verið við nám í Nesi við Seltjörn í fjögur ár, frá hausti 1783 til hausts 1787. Mikil gögn eru til um mannlíf á þessum árum á því sem nú nefnist höfuðborgarsvæðið, meðal annars óútgefin einkabréf sem Sveinn fékk send til Kaupmannahafnar á meðan hann var þar í námi, einkum frá árinu 1790. Merkastur bréfritara var unglingspilturinn Guðmundur Árnason sem var í fóstri í Nesi og lagði sig fram um að bera allt mögulegt slúður í Svein, sem greinilega hafði áhuga á slíku. Í erindinu verður greint frá helstu viðburðum, með sérstakri áherslu á slagsmál og annan ósóma.

17.
Haraldur Hreinsson, lektor: Sigurbjörn Einarsson í Svíþjóð
Sigurbjörn Einarsson lagði stund á nám í trúarbragðasögu í Uppsölum á árunum 1933-1937 og kynntist þar þeirri miklu grósku sem einkenndi hið fræðilega umhverfi á þeim tíma. Í erindinu verður fjallað um þessi mótunarár á ferli Sigurbjörns, helstu kennara og áhrifavalda, sem og hvernig hann fann þessum straumum farveg í störfum sínum innan Háskóla Íslands þegar heim var komið. Kynningin er hluti af rannsóknarverkefni um Uppsalaár Sigurbjörns sem unnið er í samstarfi við Ólaf Jón Magnússon, MA guðfræði.

24.
Óttar Guðmundsson, læknir og rithöfundur: Jón Vídalín og samskipti hans við Odd lögmann Sigurðsson
Helstu valdamernn á Íslandi í upphafi 18. aldar voru þeir bræður Jón og Páll Vídalín og Oddur Sigurðsson lögmaður. Þeir bræður og Oddur elduðu löngum grátt silfur og allir drukku þeir stíft. Saga Íslands á þessum mótast af barnalegri og ábyrgðarlausri hegðun þessara höfðingja. Óttar mun rekja sögu þeirra og deilur og hvernig þessi átök höfðu áhrif á allt samfélagið.

Desember

1.
Sigurjón Árni Eyjólfsson, prestur: Þjóðerni og trú í verkum Sigurbjörns Einarssonar?
Í erindinu verður guðfræðileg áhersla Sigurbjörns skoðuð í samhengi við þann skilning á hlutverki lista sem bundið er við hugtakið Kunstreligion. 

8.
Sigurður Jónsson, prestur: Lesið í Leipzig
Sr. Sigurður segir frá námskeiðunum í kirkjusögu sem hann sótti á vetrarmisserinu 2024-2025, sem öll snertu þýska og evrópska kirkjusögu eftir siðbreytingu. Jafnframt bregður ljósi yfir sögu borgarinnar, sem Vilhjálmur Barbarossa gaf nafn í upphafi, en Leipzig þýðir heimkynni linditrjánna. J. S. Bach var þar kirkjuorganisti í áratugi sem vert er að nefna og hvílir í kór Tómasarkirkjunnar. Síðast en ekki síst má nefna mikilvægt hlutverk borgarinnar í aðdraganda falls Berlínarmúrsins, þar sem haldið var uppi vikulegum samkomum í Nikulásarkirkjunni árum saman á 9. áratugnum til stuðnings andófinu gegn ríkjandi stjórn kommúnista.

 15.
 Áslaug Gunnarsdóttir, tónlistarkona: Tónlist á krossgötum