Hallgrímur Pétursson var einhver leiðinlegasti maður sem Halldór Laxness hafði séð á mynd. Mér finnst þessi yfirlýsing áhugaverð og það er margt um hana að segja. Hún verður í bakgrunninum í viðleitni minni til að ræða hina hliðin á Hallgrími nú í upphafi föstunnar.

Myndin af Hallgrími
Sú mynd sem Nóbelsskáldið vísar til er portrett séra Hjalta Þorsteinssonar prófasts í Vatnsfirði af sálmaskáldinu. Það átti eftir að verða prentað upp í ótal myndum, þrykkt á pappír og saumað út á veggteppi og ýmsan annan vefnað. Þar birtist, ábúðamikill Hallgrímur, stundum í „lélegri upplausn“ eins og við myndum segja í dag. Þessi svipþungi maður var einmitt þetta – leiðinlegur að sjá en það segir annars lítið til um sjálfa persónu sem þar bjó að baki. Það er fremur að myndlistamaðurinn, þessi frumkvöðull í íslenskum portrettteikningum, séra Hjalti, hafi sýnt fylgispekt við þá hefð sem var við lýði þegar málaðar voru myndir af áhrifafólki. Hjalti var á tíunda ári þegar Hallgrímur lést svo hann hefur öðru fremur stuðst við ímyndina af skáldinu og arfleiðina.

Hallgrímur birtist okkur þarna sem einhvers konar ídol, eða íkon. Hann átti líka eftir að vera það líka á sinn hátt. Var ekki vanþörf á. Þjóð sem hafði upphafið önnur tímaskeið, landnámsöld, þjóðveldi, sturlungaöld og aðra dýrðardaga sem sagt var frá í fornum handritum, fann sig einhvern veginn illa á 17. öldinni. Það á einkum við um ættjarðarelskendur og rómantíkerana sem minntust tíma þegar hetjur riðu um héruð.

Við finnum enn í dag óm af þessum hugsunum. Má í ví sambandi ræða afstöðu Steinunnar Kristjánsdóttur fornleifafræðings. Hún dregur upp dökka mynd af lútherskunni en málar bjartari litum tíð klaustra og ærlegra biskupa sem réðu. „Allt hafði annan róm/áður í páfadóm.“ Ætli margir aðrir en Íslendingar horfi til miðalda með slíkum söknuði?

Að tjá sitt innsta eðli
Og nóbelsskáldið lýsti Passíusálmum Hallgríms á þá leið að þar hefði 17. öldin ,,tjáð sitt innsta eðli sitt á fullkomnasta hátt í skáldskap.“ Sálarlíf höfunda þess tíma var að hans mati ,,svo brenglað, tilfinningalífið öfugsnúið, að mikinn hluta þessa skáldskapar er ekki hægt að flokka öðruvísi en geðveiki.“ Þetta er rosalegur vitnisburður og Margrét Eggertsdóttir lýsir þessu í bók sinni Barokkmeistarinn þar sem hún dregur upp raunsannari mynd af höfundum þess tíma. En þótt Halldór hafi verið helgimyndabrjótur sinnar aldar þá deildi hann um margt þessum hugmyndum með samtíma sínum.

Passíusálmarnir standa þó utan við litríka persónu skáldsins. Höfundar barokktímans voru fremur passívir en fullir af passíu. Viðleitni seinni tíma lesenda til að greina lífshlaup skálda innan um lýsingar á píslum Krists eru virðingarverðar en þó er ólíklegt að menn hafi erindi sem erfiði. Í barokkinu var flest bundið í form og reglur – raunar ekki ósvipað því sem mætir okkur í miklu yngri list og ólíkri – nefnilega módernismanum. En þar sem sá síðarnefndi laut vísindalegri hugsun og formum studdist barokkið við reglur skólaspeki og arf húmanisma um rökfræði, líkingar og klassísk mælskufræði. Passíusálmarnir eiga hliðstæður í erlendum ritum og það var satt að segja talsvert áfall fyrir dýrlinginn Hallgrím þegar danski fræðimaðurinn Arne Möller ritaði á þriðja áratugnum um Passíusálmana og rakti heimildir skáldsins í viðurkennd trúarrit frá þýskalandi.

Alþjóðleg list

Í þeim er jú fátt sem sprettur úr íslenskri mold eða holdi, miklu fremur eru þeir framlag til evrópskrar kristinnar hámenningar og fylgir ströngum reglum þar að lútandi. Sjálf yfirskrift sálmanna er af sama meiði sprottin. Þeir heita fullu nafni: Historia pínunnar og dauðans Drottins vors Jesú Kristí, með hennar sérlegustu lærdóms-, áminningar- og huggunargreinum, ásamt bænum og þakkargjörðum. Inni í þessu heiti er vísað í ferns konar túlkun ritningartextans – sögulega (historian), allegoríska (lærdóminn) , siðferðilegan (áminningar) og loks hin anagógíska (til huggunar). Þetta var með öðrum orðum viðurkennd aðferð til túlkunar biblíutexta og var kenn í skólum Evrópu.

Íkonið Hallgrímur
Svipurinn á Hallgrími minnir um margt á ásjónu dýrlinga og kirkjufeðra eins og þeir voru málaðir hér fyrr á öldum. Frá gleðisnauðu andlitinu streymdi viska, lotning, fórnfýsi og ami yfir hverfulum og syndugum heimi. Hallgrímur hefur einmitt öðlast þann sess að vera einhvers konar ljós í meintu myrkri 17. aldar og raðar sér þar við hlið miðaldabiskupanna Þorláks Þórhallssonar, Jóns Ögmundssonar og Guðmundar góða sem þjóðardýrlingur Íslendinga. Síðar bættust Jón Sigurðsson í þann hóp og um tíma leit svo út að Halldór sjálfur Laxness yrði einnig settur á þann stall.

Þá athöfn að lesa upp alla passíusálmana á föstunni og á föstudeginum langa má skoða sem sambland trúarlegrar hefðar og þjóðlegrar og rennir og stoðum undir þá afstöðu að Hallgrímur Pétursson sé einn af lútherskum dýrlingum Íslands.

Maður písla
Hallgrímur var jú maður písla og eins og í heilagra manna sögum hafa varðveist sagnir af honum sem gefa það til kynna með einum eða öðrum hætti. Hann er sjaldnast nefndur án þess að holdsveikina beri á góma og auðvitað hina passíuna í lífi hans – ástina milli hans og Guðríðar Símonardóttur, en þau áttu eftir að vera milli tannanna á fólki og þarf svo sem ekki að undra. Guðríður vissi ekki um afdrif eiginmanns síns, Eyjólfs Sölmundarsonar þegar hún gekk í hjónaband með Hallgrími. Aldursmunurinn var mikill á milli þeirra og Tyrkja-Gudda lá undir því ámæli að hafa mögulega umturnast þarna í barbaríinu. Þá eru fjölmargar þjóðsögur tengdar honum. Hann átti að hafa drepið ref með áhrínskvæði undir miðri predikun í Saurbæjarkirkju.

Krassandi mynd
En allt var þetta fyrirgefið og myndin af Hallgrími er allt annað en leiðinleg. Hún er krassandi og viðburðarrík og mannleg. Því til viðbótar var harmurinn mikill þegar þau sáu á eftir börnum sínum. Þegar Steinunn litla lést – augasteinn föður síns – smíðaði Hallgrímur kistuna utan um líkama hennar. Og hann klappaði nafn hennar í mikla grjóthellu sem hann sótti upp á Miðnesheiði. Góðvinur kórs Neskirkju, Snorri Hjartarson orti um þetta ljóð og því lýkur á orðunum:

Ég geng út í hlýjan blæinn
og finnst hafið sjálft ekki stærra
en heilög sorg þessa smiðs.

Sagan um þennan legstein Steinunnar var talin ein af helgisögnum um Hallgrím en á sjöunda áratugnum kom hún í leitirnar og hafði þá legið á hvolfi við kirkjudyrnar í Hvalsneskirkju.

Enn ein sögnin segir frá því þegar Hallgrímur var í æsku rekinn á brott frá Hólum þótt þar ætti hann bandamenn í biskupum og þeirra slegti. Sumir segja að ástæðan hafi verið sú að hann hafi ort tvíræðan kveðskap sem hafi farið fyrir brjóstið á fólki. Séra Vigfús Jónsson í Hítardal sem reit sögu Hallgríms kemst svo að orði að Hallgrímur hafi komist: „í einhvörja ólempni fyrir kveðskap eður þesskonar unggæðishátt hjá fyrirkvenfólki á stólnum“.

Þrjár hliðar Hallgríms
Og í þeirri ónákvæmu frásögn leynast jú í það minnsta þrjár hliðar á okkar manni. Fyrir það fyrsta var það brotteksturinn, útlegðin sem hann þurfti að sæta. Eins og Adam hinn fyrsti maður var hann rekinn út úr þessum íslenska aldingarði mennta og fræða og þurfti að berjast fyrir framfærslu sinni í sveita síns andlits. Sagan segir líka að Brynjólfur biskup hafi heyrt í honum þar sem hann barmaði sér undan hlutskipti sínu sem lærlingur hjá smið, annað hvort í Kaupmannahöfn eða Gluckstadt. Þrátt fyrir ætternið var Hallgrímur jaðarsettur og sú mynd fylgir honum á einn eða annan hátt.

Annað í þessari sögu er vísan í skáldið. Goðsögnin um Hallgrím fyllti upp í vandræðalegt tómarúm 17. aldarinnar í ýmsum efnum. Þá skapaðist rými fyrir skáldið sem hafið var upp til skýja. Það var ekki síst eftir að bókfestukenningin fékk aukið fylgi. Samkvæmt hnni byggðu Íslendingasögurnar ekki á raunverulegum atburðum heldur voru þær verk rithöfunda sem sóttu í eldri munnmælasögur. En þar sem söguhetjurnar nýttust ekki lengur sem fyrirmyndir og stórmenni þá voru það sögumennirnir sem þjóðin lærði að elska. Þar var komið pláss fyrir Hallgrím á sviðinu.

Loks var það þriðja atriðið sem við finnum í þessari örstuttu vinjettu af lífi skáldsins. Það er auðvitað uppreisnin og óþekktin sem gerðu hann svo mannlegan og allt annað en leiðinlegan nema fyrir þeim sem máttu þola glósur hans og háð. Sagnfræðingar hafa margir hverjir staldrað við þetta einkenni liðinna alda – fyrir og eftir siðaskipti þá ber mjög á óþekkt meðal alþýðu og almúga.

Óþekkt
Hún tók á sig margvíslega mynd en í ljósi þess að eftir rúma viku vísiterar biskup Nessókn en ein mynd þessarar óhlýðni voru ítrekuð skróp sóknarfólks við biskupsvísitasíu. Þegar hinn geistlega hóp bar að garði var eins og allt líf legðist niður í þeirri sveit og fólk virðist hafa forðast það eins og heitan eldinn að mæta til kirkju eða á aðra þá staði þar sem biskup hafði mælt sér mót við íbúana. Þetta virðist alltaf hafa komið þeim jafn mikið á óvart en þessi hegðun á sér djúpar rætur í kristninni og er vandi að geta í eyðurnar af hverju hún stafar.

Óþekkur Hallgrímur sem ögrar yfirvöldum í biskupsgarði á Hólum fellur á hinn bóginn vel að þessari mynd. Hann orti líka ölerindi og sagan segir að í hokri sínu og tekjuleysi í Hvalsnesi hafi hann ort sagnabálka af frægu fólki í útlöndum sem hann svo seldi á bæina. Þetta mun hafa komið reglulega út og hafi bændur og búalið beðið í ofvæni eftir næsta þætti í þessari sápuóperu.

Já, einhliða myndin af Hallgrími á verki séra Hjalta  sýndi þessan lútherska 17. aldar dýrling. Myndirnar eru fleiri eins og hér hefur verið leitast við að sýna fram á. Þær eru mótsagnarkenndar um margt eins og þeir tímar sem hann lifði. Þar finnum við bæði jaðarsetningu og upphafningu, píslir og þrautir, viðurkenndar aðferðir og mannlegar píslir.